16 Nóvember 2021 16:29

Fimm ný smit greindust eftir sýnatöku í gær, tvö þeirra á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði og þrjú á Egilsstöðum. Fjórir hinna smituðu voru í sóttkví. Smitrakning stendur yfir vegna þess fimmta.

Í ljósi smita sem greinst hafa í Breiðdalsvíkurskóla og Stöðvarfjarðarskóla verða báðir lokaðir á morgun. Þá mun boðið upp á auka sýnatöku í kvöld, 16. nóvember.

Tímasetningar sýnatöku o.fl:

Kl. 18-18:30 á Breiðdalsvík (sýnatakan verður staðsett í grunnskólanum)

Kl. 20-20:30 á Stöðvarfirði (sýnatakan verður staðsett í grunnskólanum)

Nemendur og starfsfólk í grunn- og leikskólanum, ásamt foreldrum, systkinum og öðrum sem þeim og skólanum tengjast eru sérstaklega hvattir að mæta í PCR sýnatöku. Sýnatakan er opin öllum.

Einstaklingar bóka sjálfir sýnatöku inn á heilsuvera.is, líka fyrir börn sín, og koma síðan með strikamerki í sýnatöku. Ekki þarf að bóka tíma, bara að mæta á þeim tíma sem tiltekinn er hér að ofan. Ef illa gengur að bóka í sýnatöku er í lagi að mæta og fá aðstoð við að skrá í sýnatöku.

Á sýnatökustað er mikilvægt er að halda góðu bili og þá vísað til eins meters reglu, nota andlitsgrímur og stoppa stutt.

Eftir sýnatöku:

  • Þeir sem finna fyrir einkennum sem geta bent til Covid-19 og koma í PCR sýnatöku eiga að halda sig heima þar til niðurstöður úr sýnatöku liggja fyrir.
  • Þeir sem finna ekki fyrir neinum einkennum og koma í PCR sýnatöku er ráðlagt að halda sig til hlés og fylgja reglum um smitgát þar til niðurstöður úr sýnatöku liggja fyrir. Það er þó í lagi að sækja vinnu eða sinna öðrum erindagjörðum innan skynsamlegra marka.

Til þeirra sem þegar eru í sóttkví:

Þeir sem eru í sóttkví þurfa ekki að mæta í þessa sýnatöku enda verða þeir einstaklingar boðaðir í sýnatöku undir lok sóttkvíar. Ef um er að ræða einstakling í sóttkví sem er farinn að finna fyrir einkennum er í lagi að viðkomandi mæti í sýnatöku en fari þá í öllu eftir reglum um sóttkví, haldi sig frá öðrum á sýnatökustað og láti vita af því að hann sé í sóttkví.

Rétt er að hafa í huga að neikvæð niðurstaða hjá þeim í sóttkví styttir ekki lengd sóttkvíar, heldur þarf að mæta í sýnatöku skv. fyrirmælum rakningateymis við lok sóttkvíar.