17 Nóvember 2021 19:13

Eitt nýtt smit bættist við á Austurlandi í gær og tengdist það grunnskólanum á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði. Nú eru alls 4 staðfest smit hjá nemendum skólans og töluverður fjöldi fólks er í sóttkví vegna þess.

Í gærkvöldi voru tekin um 80 sýni í sýnatöku á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði og var fyrirhugað að senda sýnin með fyrstu vél í morgun en fluginu var síðan aflýst vegna veðurs. Sýnin voru því send í dag ásamt þeim sýnum sem voru tekin á Egilsstöðum og Reyðarfirði. Niðurstöðu er því ekki að vænta fyrr en seint í kvöld eða fyrramálið.  Af þeim sökum hefur aðgerðastjórn Austurlands í samráði við skólastjórnendur ákveðið að allt skólahald verði fellt niður á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði á morgun á meðan beðið er eftir niðurstöðum úr sýnatöku.