31 Janúar 2019 16:25

Vegna fréttar á menn.is, þar sem vitnað er í fésbókarskrif um afskipti lögreglu af ungum pilti í verslun í Breiðholti í síðustu viku, vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að málsatvik voru ekki með þeim hætti sem þar er lýst. Þar ber að nefna að umræddur piltur var ekki staðinn að þjófnaði né var hann grunaður um nokkuð slíkt og því mjög mikilvægt að það komi fram. Jafnframt skal þess getið að lögreglumenn á vettvangi áttu engin orðaskipti við þann sem ritaði áðurnefnda fésbókarfærslu og virðist umfjöllun viðkomandi byggð á misskilningi. Orðum um að lögreglumenn hafi lagt hendur á piltinn er algjörlega vísað á bug.

Skoðun á myndefni úr eftirlitsmyndavélum á og við vettvang staðfestir enn frekar að allar ávirðingar í garð lögreglu í málinu eru ekki á rökum reistar.