4 Mars 2020 12:16

Á dögunum barst Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fyrirspurn um söluvöru sem innihéldi CBD olíu en spurt var hvort slík vara væri lögleg. Því miður varð sá leiði misskilningur að svarað var á þá leið að svo væri.  Réttara hefði verið að vísa í upplýsingar frá Lyfjastofnun og Matvælastofnun en CBD fellur undir eftirlit þessara stofnana eftir því hvort um lyf eða fæðubótaefni sé að ræða.

Lögreglan vill því árétta upplýsingar um CBD sem er að finna á heimasíðu Matvælastofnunar:

„Óheimilt er að flytja inn, dreifa eða markaðssetja fæðubótaefni sem innihalda CBD (kannabídíól). CBD er eitt af virku efnunum í kannabis og eru dæmi um að efnið sé notað í læknisfræðilegum tilgangi. Hérlendis er CBD innihaldsefni í lyfi með markaðsleyfi, en fyrir slíkar vörur gilda lyfjalög.

CBD olíur innihalda efnið kannabídíól sem er lyfjavirkt efni. Ef CBD olíur eru framleiddar sem fæðubótarefni þá gilda lög um matvæli nr. 93/1995. Samkvæmt 11. gr. laganna er óheimilt að flytja inn til landsins eða markaðssetja matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni, sem innihalda lyf samkvæmt skilgreiningu lyfjalaga. Innflutningur á CBD olíum, framleiddar sem fæðubótarefni, er því bannaður á grundvelli ofangreindra matvælalaga.

Hins vegar er mögulegt að láta flokka vöru, sem framleidd er sem fæðubótarefni, ef innflytjandinn telur að það magn CBD í vörunni sem hann hyggst flytja inn, dreifa og/eða markaðssetja, falli ekki undir skilgreiningu á lyfi skv. lyfjalögum. Í því tilviki gildir einnig 11. gr. matvælalaga, en þar segir að leiki vafi á því hvort einstök efnasambönd teljist lyf, þá er það Lyfjastofnunar að skera úr um það.“

Í framhaldi af umfjöllun mun Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skoða aftur umrædda vöru og skoða hvort rétt sé að rannsaka málið frekar eða beina því til skoðunar hjá viðeigandi eftirlitsstofnun.