1 Nóvember 2022 12:28

Tuttugu og níu ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Tuttugu og sex voru stöðvaðir í Reykjavík og þrír í Hafnarfirði. Sex voru teknir á föstudagskvöld, þrettán á laugardag, níu á sunnudag og einn aðfaranótt mánudags. Þetta voru tuttugu og fimm karlar á aldrinum 23-75 ára og fjórar konur, 25-46 ára. Sex þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og þrír hafa aldrei öðlast ökuréttindi. Einn ökumannanna var á stolnum bíl.

Á sama tímabili voru tíu ökumenn staðnir að því að aka gegn rauðu ljósi og fimm ökumenn töluðu í síma án handfrjáls búnaðar. Loks má nefna að höfð voru afskipti af sextíu sex ökutækjum í umdæminu, sem öllum var lagt ólöglega.