7 September 2007 12:00
Sautján ára stúlka var staðin að þjófnaði í Kringlunni í gær. Hún hafði klætt sig í jogging-buxur í ónefndri verslun og síðan í sínar eigin buxur utan yfir. Stúlkan hafði jafnframt fjarlægt þjófavarnarmerkið af jogging-buxunum og taldi þar með að hún kæmist upp með þetta. Eftirtektarsamur afgreiðslumaður sá hins vegar við henni og stúlkan viðurkenndi þjófnaðinn umsvifalaust. Þessi aðferð þjófa er velþekkt og afgreiðslufólk er vel á varðbergi.
Önnur aðferð þjófa er að taka vörur úr pakkningum eða kössum og setja þær í aðrar umbúðir sem eru merktar með lægra verði. Kona á fimmtugsaldri reyndi þetta í Smáralind en hún svissaði kremtúpum á milli umbúða og ætlaði með því að græða einhverjar krónur. Hún var gripin glóðvolg við þessa iðju og á nú kæru yfir höfði sér líkt og stúlkan sem ætlaði að stela jogging-buxunum.