Frá vettvangi við Kópalind í Kópavogi.
2 Maí 2016 10:25

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. apríl.

Sunnudaginn 24. apríl kl. 15.37 féll hjólreiðamaður á gangstétt á Digranesvegi við Hólahjalla. Hann var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 25. apríl kl. 0.16 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem var ekið vestur götuna, á röngum vegarhelmingi. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis. Hann ásamt hinum ökumanninum og tveimur farþegum í þeirri bifreið voru fluttir á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 30. apríl. Kl. 10.10 féll hjólreiðamaður á göngustíg af Kópalind eftir að hafa hjólað of hratt. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.50 lenti drengur á reiðhjóli á hlið bifreiðar í Hlyngerði. Drengurinn hafði hjólað hratt eftir göngustíg og ætlaði yfir götuna þegar bifreiðinni var ekið suður hana. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.57 féll hjólreiðamaður af hjólinu á Norðurgarði. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.57 féll bifhjólamaður af hjólinu eftir að hafa ekið austur Borgaveg og lent á kantsteini. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki sít við um hjólreiðafólk.

Frá vettvangi við Kópalind í Kópavogi.

Frá vettvangi við Kópalind í Kópavogi.