3 September 2004 12:00

Klukkan 03:56 í nótt barst lögreglunni í Hafnarfirði tilkynning um eld í bifreið við íbúðarhús að Fögrukinn 4, Hafnarfirði. Slökkvilið kom á staðinn skömmu síðar.

Stuttu eftir að tilkynning þessi barst kom í ljós að eldur logaði og í tveimur bifreiðum á bifreiðaplani við fjölbýlishús að Lækjargötu 34d, Hafnarfirði, en stutt er þarna á milli vettvanga. Eldurinn breiddist þar hratt út til fleiri bifreiða, auk þess sem rúður sprungu á neðri hæðum fjölbýlishússins vegna elds og hita. Sótskemmdir urðu einnig á klæðningu hússins. Í allt urðu skemmdir á sex bifreiðum í eldsvoðanum, á fimm bifreiðum við Lækjargötu og á einni í Fögrukinn.

Slökkvistarfi var lokið klukkan 05:07.

Ljóst er að um íkveikju var að ræða og klukkan 07:45 var maður handtekinn í heimahúsi í Hafnarfirði, grunaður um verknaðinn. Gerð hefur verið krafa um gæsluvarðhald yfir honum til 15. september næstkomandi, með tilliti til rannsóknar- og almannahagsmuna.