30 September 2019 18:06

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. september, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 22. september. Kl. 11.55 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í krappri beyju á Elliðvatnsvegi, skammt frá Heiðmerkurafleggjara, með þeim afleiðingum að hún endaði utan vegar og valt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.34 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni og ók á steinvegg, sem skilur að bifreiðastæði á milli Bónuss og Krónunnar í Háholti í Mosfellsbæ. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 23. september kl. 20 var bifreið ekið austur Borgaveg og beygt norður Víkurveg, en þar hafnaði hún á gangandi vegfaranda á gangbraut á Víkurvegi. Vegfarandinn, sem sagðist hafa gengið yfir gangbrautina á grænu ljósi, var með heyrnartól og var að hlusta á útvarpið. Mjög slæmt skyggni og rigning var á vettvang og sagðist ökumaðurinn ekki hafa séð vegfarandann í aðdraganda slyssins.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 24. september. Kl. 1.22 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Hafnarfjarðarvegi, sem var ekið til suðurs í átt að Arnarnesbrú, og snerist hún í hringi og hafnaði á ljósastaur. Grunur er um að bifreiðinni hafi verið ekið talsvert yfir leyfðan hámarkshraða. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.59 var bifreið ekið á tré í húsagarði við Hjarðarhaga, en ökumanni hennar varð á að bakka þegar hann átti að aka áfram. Ökumaðurinn og farþegi í bílnum voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 25. september kl. 10.08 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg og aftan á kyrrstæða bifreið á gatnamótunum við Litluhlíð. Ökumaður og farþegi í bílnum sem ekið var á, voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 27. september kl. 19.59 ók bifreið á reiðhjólamann á mótum Norðurbrúar og Strandvegar í Garðabæ. Reiðhjólamaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 28. september. Kl. 11.31 hjólaði reiðhjólamaður í hlið bifreiðar á lóð Landspítalans við Hringbraut. Hann leitaði sér aðhlynningar í framhaldinu. Kl. 14.10 missti ökumaður á torfæruhjóli stjórn á því á vegslóða upp frá Lækjarbotnum og féll í jörðina. Ökumaðurinn, sem var vel búinn öryggisbúnaði, var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.36 var rafmagnshlaupahjóli ekið á gangandi vegfaranda á Klambratúni. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild, en ökumaðurinn var handtekinn, grunaður um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi við Hafnarfjarðarveg.