8 Ágúst 2006 12:00

Lögreglunni í Reykjavík hafa borist nokkrar tilkynningar um innbrot um verslunarmannahelgina. Brotist var inn á fjögur heimili í borginni og í tvö fyrirtæki. Þá var farið inn í tvær geymslur og sjö bifreiðar.

Þrátt fyrir að fjöldi borgarbúa væri á faraldsfæti um helgina hafði lögreglan í Reykjavík í ýmsu að snúast. Fjölmargar kvartanir bárust vegna hávaða í heimahúsum og þá þurfti að hafa afskipti af ölvuðu fólki. Í einu tilviki lagðist maður til svefns í ókunnugu húsi. Hann var fjarlægður og fékk að sofa úr sér í fangageymslu lögreglunnar. Nokkur fíkniefnamál komu líka upp um helgina en þau voru flest minniháttar.