Frá vettvangi á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Álfheima.
22 Febrúar 2022 14:05

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. febrúar, en alls var tilkynnt um 44 umferðaróhöpp í umdæminu.

Miðvikudaginn 16. febrúar kl. 7.36 var bifreið ekið vestur Suðurlandsbraut, inn á gatnamót Álfheima, þegar annarri bifreið var ekið suður Álfheima með fyrirhugaða vinstri beygju austur Suðurlandsbraut og varð árekstur með bifreiðunum. Umferðarljós stýra umferð um gatnamótin, en samkvæmt vitnum þá logaði grænt ljós fyrir aksturstefnu frá Álfheimum fyrir umferð í vinstri beygju austur Suðurlandsbraut, en rautt ljós fyrir aksturstefnu vestur/austur Suðurlandsbraut. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 18. febrúar. Kl. 8.51 var bifreið ekið norður Sæbraut á vinstri akrein þegar annarri bifreið var ekið frárein frá Bíldshöfða, inn á hægri akrein Sæbrautar og síðan yfir á vinstri akrein svo árekstur varð með bifreiðunum. Fyrri bifreiðin kastaðist áfram á vegrið sem aðskilur akstursleiðir norður/suður Sæbraut. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.31 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg við Arnarnesbrú þar sem ökumaður missti stjórn á bifreinni svo hún snérist í nokkra hringi og hafnaði bifreiðin síðan utan í vegriði hægra megin á veginum. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 19. febrúar kl. 9.59 var fólksbifreið ekið frá bifreiðastæði við Hlíðarhjalla 44-62 og inn á akbraut Hlíðarhjalla þegar strætisvagni var ekið suður Hlíðarhjalla og varð árekstur með bifreiðunum. Ökumaður og farþegi í fólksbifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.