5 Júní 2009 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu beinir þeim góðfúslegu tilmælum til ökumanna sem eiga leið um Laugardalinn að nýta þau bílastæði sem þar eru í stað þess að leggja ólöglega á eða við götur á svæðinu. Þetta er nefnt hér sérstaklega vegna landsleiks Íslendinga og Hollendinga í knattspyrnu sem fram fer á Laugardalsvellinum annað kvöld. Reynsla síðustu ára sýnir að bílastæði við völlinn eru ekki fullnýtt þegar ýmsir stórviðburðir fara þar fram. Þess í stað hafa margir lagt það í vana sinn að leggja ólöglega á Reykjavegi og Engjavegi  svo aðeins tvær götur séu nefndar. Sömuleiðis er iðulega lagt ólöglega á ýmis grassvæði í Laugardalnum. Lögreglan ítrekar því tilmæli sín til ökumanna og hvetur þá til að nýta bílastæðin til fulls. Að öðrum kosti mega ökumenn búast við sektum vegna stöðubrota.