21 Ágúst 2011 12:00

Starfsmenn umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu höfðu í mörg horn að líta á Menningarnótt. Umferðin gekk að mestu áfallalaust þótt nokkur umferðaróhöpp væru tilkynnt til lögreglunnar en tvö þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Sex ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í gær og nótt og einn ók undir áhrifum fíkniefna.

Að venju var talsvert um að ökutækjum væri illa og/eða ólöglega lagt í og við miðborgina og í einhverjum tilvikum þurfti að fjarlægja ökutæki af vettvangi með dráttarbíl. Sumir ökumenn áttu líka erfitt með að virða lokanir gatna. Að öllu samanlögðu verður þó ekki annað sagt en að umferðin hafi gengið bara nokkuð vel á Menningarnótt.