31 Janúar 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar vitna í tengslum við rannsókn hennar á sprengju sem fannst neðst við Hverfisgötu í Reykjavík í morgun. Aðili sem var á biðstöð fyrir strætisvagna neðst á Hverfisgötunni, fyrir klukkan sjö, er sérstaklega beðinn um að gefa sig fram. Aðrir, hvort sem þeir geta gefið upplýsingar um fólk eða ökutæki á þessu svæði á tímabilinu 6.30-7, eru einnig beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000 en upplýsingar má einnig senda í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is Sömuleiðis er hægt að koma nafnlausum ábendingum á framfæri í síma 800-5005.

Staðfest er að sprengjan sprakk fyrir klukkan sjö í morgun, steinsnar frá stjórnarráðinu í Lækjargötu, en engan sakaði og sömuleiðis urðu engar skemmdir. Sprengjan var ekki öflug en hætta var þó á ferðum í nánasta umhverfi þar sem hún sprakk. Einnig er ljóst að sá eða þeir sem bjuggu hana til hafa þurft að búa yfir einhverri kunnáttu. Lögreglan lítur málið mjög alvarlegum augum og er rannsókn þess í fullum gangi. Enn er enginn grunaður um verknaðinn en meðal þess sem lögreglan vinnur að er að yfirfara myndefni úr eftirlitsmyndavélum í miðborginni. Sprengjan er til frekari rannsóknar hjá tæknideild lögreglunnar.

Eins og fram hefur komið þurfti að loka af hluta Hverfisgötunnar, eða frá Lækjargötu að Ingólfsstræti, eftir að þar fannst torkennilegur hlutur sem reyndist vera leifar af sprengju.  Sprengjusveitir lögreglu og Landhelgisgæslunnar voru kallaðar til og gerðu þær viðeigandi ráðstafanir. Lokun á Hverfisgötu var aflétt um hádegisbil.