3 Mars 2020 16:19

Eins og komið hefur fram þá er nú unnið á hættustigi vegna Covid 19 veirusýkingar sem greinst hefur hér á landi.   Sóttvarnalæknir í Suðurlandsumdæmi ásamt sameiginlegum starfsmanni almannavarnarnefnda og lögreglustjóra á Suðurlandi hafa unnið mikið starf með viðbragðsaðilum allra eininga við að undirbúa þá sem að þurfa að koma að verkefninu.    Aðgerðastjórn umdæmisins vegna verkefnisins kom saman í gær í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi þar sem gert er ráð fyrir að hún starfi þegar og ef þörf verður á.  Búið er að finna húsnæði sem nýtist sem sóttkví fyrir þá sem þurfa að vera í henni.  Þessir staðir eru dreifðir um Suðurlandið og verða nýttir eftir því sem verkefnin gefa tilefni til.   Gert er ráð fyrir því að flestir séu í sóttkví heima hjá sér en við viljum vera við öllu búin og geta lagt til húsnæði ef þarf.   Í dag verður fundað með almannavarnarnefndum umdæmisins og farið yfir stöðu mála.  Framundan eru síðan fræðslufundir með viðbragðsaðilum þar sem farið verður yfir verkferla og spurningum svarað.

Fyrir almenning er auðveldast að fá upplýsingar af síðu  landlæknis https://www.landlaeknir.is/ en efst á þeirri síðu er gulur borði sem opnar síðu með öllum upplýsingum um þennan faraldur.  Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að lang flestir þeirra sem smitast fara í gegn um veikindin eins og hverja aðra kvefpest.   Börn og yngra fólk virðist t.d. höndla þetta vel. Hinsvegar skiptir miklu máli að hefta útbreiðslu veirunnar því eldra fólk og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma geta veikst alvarlega.   Ekki viljum við vera sá/sú sem ber þessa óværu í þá sem þannig eru settir.