12 September 2018 14:38
Fjölmörg erfið og krefjandi verkefni komu á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2017, en bæði hegningarlaga- og sérrefsilagabrotum fjölgaði í umdæminu frá fyrra ári. Hegningarlagabrot voru í kringum 9.500 og sérrefsilagabrot nálægt 4.000. Til viðbótar voru skráð umferðarlagabrot um 40.000, en þeim fjölgaði mikið á milli ára. Lögreglan hafði því í nógu að snúast og verkefnin ærin eins og nærri má geta. Sum voru ný af nálinni, en önnur gamalkunnug og kannski komin framar á verkefnalistann. Forgangsröðunin var ennþá til staðar enda nauðsynlegt að nýta mannskap og fjármuni sem allra best.