14 September 2019 09:00

Axel Helgason var einn brautryðjendanna hjá lögreglunni á fyrri hluta síðustu aldar eða svo. Hann var í götulögreglunni á stríðsárunum þegar Ísland var hernumið af Bretum, en undir stríðslok fór Axel til New York og kynnti sér tæknirannsóknir, ekki síst fingrafarafræði. Seinna fór hann í námsferð til Scotland Yard, en Axel stofnaði fingrafaradeild rannsóknarlögreglunnar og er fyrir mörgum goðsögn í þeim fræðum. Til eru sögur af vinnubrögðum hans, sem þóttu eintök. Ein var á þá leið að Axel var kallaður á vettvang þar sem brot hafði verið framið, kynnti sér sönnunargögnin og kvað síðan upp að tiltekinn maður hefði framið brotið. Axel hafði þá fundið fingraför mannsins á flösku á brotavettvangi, ef minnið svíkur ekki skrifara, og var alveg viss í sinni sök. Samstarfsfélagar hans áttu víst dálítið erfitt með trúa þessu og fengu svo staðfest að þetta gæti ekki gengið upp því hinn meinti brotamaður var víst vistaður á Litla-Hrauni á sama tíma. Axel var hins vegar óhagganlegur með niðurstöðuna og því var málið kannað nánar. Kom þá í ljós að brotamaðurinn hafði fengið dagsleyfi frá Litla-Hrauni, brugðið sér í bæinn og brotið af sér eins og Axel sagði réttilega til um.

Nokkrum vikum áður en Axel kom til starfa hjá lögreglunni í Reykjavík barst honum bréf, dagsett 8. febrúar 1937. „Á fundi bæjarstjórnarinnar 4. Þ. m. voruð þér settur til þess að vera lögregluþjónn í Reykjavík frá 1. mars næstk. að telja um óákveðinn tíma. Starfið ber yður að leysa af hendi eftir fyrirmælum lögreglustjórans í Reykjavík. Laun verða yður greidd með hliðsjón af Samþykkt um laun starfsmanna kaupstaðarins frá 13 des. 1919, 6. flokki, með einni aldurshækkun, þannig að árslaunin verði kr. 2700.00, auk dýrtíðaruppbótar. Verða launin greidd mánaðarlega eftirá. Það skal tekið fram, að úr bæjarsjóði verður ekki greitt fyrir aukaþjónustu, sem þér kunnið að inna af höndum eftir fyrirmælum yfirmanna lögreglunnar.“

Axel lét til sín taka á fleiri sviðum, en hann var t.d. þeirrar skoðunar að umferðarfræði og umgengisvenjur ætti að kenna í barnaskólum landsins, eins og hann orðaði það. „Við þurfum að kenna börnunum sérstaklega umgengnissiði, sem skapað gæti umgengnis og umferðarmenningu, en ég tel að tillitssemin í daglegu fari fólksins hafi mikla þýðingu í samband við fækkun árekstra og slysa í umferðinni. Slíkt verður að búa í fólkinu sjálfu. Til þess að það nái að festa þar rætur verður fræðslan að fara fram um leið og önnur fræðsla stendur yfir. Þessvegna tel ég að umferðarfræði og umgengnissiði eigi að gera að skyldunámsgrein í skólum landsins. Einstaklingurinn myndi smám saman fara að taka meira tillit til annarra. Það er tillitssemin sem að mínu áliti er undirstaðan undir umferðarmenningu. Væri nægileg tillitssemi ríkjandi meðal almennings væru færri umferðarslys og árekstrar. Kennsla í umgengnisvenjum myndi um leið skapa fegurri framkomu fólksins í heild.“ Þetta var líklega skrifað í kringum 1955 og á kannski ennþá við í dag, eða hvað?

Axel hætti í lögreglunni 1957 og stofnaði Nesti sama ár. Nesti rak bensín- og greiðasölu á tveimur stöðum í Reykjavík. Önnur var við Suðurlandsbraut, hjá Elliðaám, og hin við Hafnarfjarðarveg í Fossvogi. Þarna voru bílalúgur, en þessi bensín- og söluturnahús þóttu alveg einstaklega glæsileg á sínum tíma tíma, en þau hannaði Manfreð Vilhjálmsson arkitekt. Axel, sem var mjög listfengur og var einn stofnenda Myndlistarskólans í Reykjavík, lést af slysförum í Heiðarvatni í Mýrdal langt fyrir aldur fram árið 1959, þá aðeins 46 ára.

Árslaun Axels hjá lögreglunni í Reykjavík árið 1937 voru kr. 2700.00, auk dýrtíðaruppbótar. Ekki var greitt fyrir aukaþjónustu, sem hann kunni að inna af höndum eftir fyrirmælum yfirmanna lögreglunnar.

Axel var bæði frístundamálari og myndhöggvari og eftir hann liggja ýmiss verk. Hér er ein margra skopmynda hans, en skrifari veltir fyrir sér hvort að maðurinn á myndinni sé bróðir Axels, Frímann Helgason. Sá vann það merkilega afrek að verða 10 sinnum Íslandsmeistari í knattspyrnu með Val, en Frímann var síðar íþróttafréttamaður um árabil.

Axel að störfum hjá rannsóknarlögreglunni, en myndin er mögulega tekin á Fríkirkjuvegi 11 í Reykjavík. Heldur er þetta fábrotinn tæknibúnaður og ólíkur því sem við eigum að venjast í dag.