18 Apríl 2006 12:00

Mánudaginn 3.apríl sl. fann Tollgæslan í Reykjavík mikið magn af fíkniefnum sem falin voru í notaðri fólksbifreið sem flutt var inn frá Evrópu. Tollgæslan gerði viðeigandi ráðstafanir og lét m.a. lögregluna í Reykjavík  vita sem hóf strax rannsókn á málinu.

Bifreiðin var tollafgreidd og afhent innflytjanda þriðjudaginn 11.apríl.

Seint á fimmtudagskvöldið 14.apríl  (skírdag) handtók lögreglan í Reykjavík, með liðsauka frá sérsveit Ríkislögreglustjórans,  4 menn vegna rannsóknar málsins; þrír þeirra höfðu þá fært bifreiðina í iðnaðarhúsnæði í austurborginni og voru gripnir þar sem þeir voru að losa efnin úr bifreiðinni og fjórði maðurinn var handtekinn síðar um nóttina.

Á föstudag voru mennirnir úrskurðaðir í gæsluvarðhald í 3 vikur eða til 5.maí nk.

Rannsókn málsins er á byrjunarstigi.  Ótímabær fréttaflutningur af málinu hefur þegar komið sér illa fyrir rannsóknina og vegna rannsóknarhagsmuna verða að svo komnu ekki veittar frekari upplýsingar, hvorki um magn né tegund efnanna, eða aðrar staðreyndir málsins. Um er að ræða verulegt magn fíkniefna og með því mesta sem lagt hefur verið hald á í einu lagi hér á landi.