10 Maí 2021 15:02

Lýst hefur verið yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum á SV horni landsins.  Tveir sinubrunar voru tilkynntir til neyðarlínu þann 6. maí s.l.    Vel gekk að ná utan um þá, bæði með dyggri aðstoð vegfarenda og svo skjótu viðbragði brunavarna.  Annar bruninn var í Grímsnes- og Grafningshreppi en hinn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.   Fólk er hvatt til að fara varlega með eld í þeirri þurrkatíð sem verið hefur vestanmegin í umdæminu og ljóst er að sú hætta verður viðvarandi um einhvern tíma miðað við veðurspár.

Eldur kom upp í bílskúr í Hveragerði þann 7. maí.   Mikið tjón varð á skúrnum og eitthvað á aðliggjandi byggingum.    Eldsupptök liggja ekki fyrir og eru til rannsóknar.   Þá kom upp eldur í vélageymslu á sveitabæ í Landbroti þann 9. maí.   Verið var að vinna við rafsuðuvinnu í vélageymslunni þegar eldsins varð vart.   Þrennt leitaði sér lækninga vegna gruns um reykeitrun af völdum eldsins.   Umtalsvert tjón varð á húsnæðinu og vélum og búnaði í því.   Eldsupptök eru í rannsókn.

Frekari akstur 6 ökumanna sem stöðvaðir voru í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi var stöðvaður og þeir kærðir vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum fíkniefna.   Tveir þeirra reyndust að auki sviptir ökurétti vegna fyrri brota.    Sjöundi ökumaðurinn var svo kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis.   Málin bíða niðurstöðu blóðrannsóknar.

52 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í vikunni.  Einn þeirra á ökutæki yfir 3500 kg og fær hann því 20% álag á sektina frá því sem væri ef hann væri á ökutæki undir þessari þyngd.  Sama gildir um bifreiðir sem eru 3,5 tonn eða minna og draga eftirvagn, þ.m.t. fellihýsi, tjaldvagn og hjólhýsi,  Flutninga og vörubifreiðar, hópbifreiðar og bifhjól með hliðarvagni eða skráningarskyldum eftirvagni.   Af þessum 52 ökumönnum voru 41 í Árnessýslu, 8 í Rangárvallasýslu, 2 í Vestur Skaftafellssýslu og 1 í Sveitarfélaginu Hornafjörður.

7 ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur ökutækja sinna í umdæminu í liðinni viku.

Árekstur varð með vespu og bifreið í Hveragerði þann 5. maí.   Á vespunni var hjálmlaus farþegi auk ökumanns sem bar hjálm.  Áhöfn vespunnar naut aðhlynningar sjúkraflutningamanna sem kallaðir voru á vettvang en ekki var metin ástæða til flutnings þeirra á sjúkrahús með sjúkrabifreið.   Ökumaður vespunnar taldi að hemlar hennar hafi ekki virkað sem skyldi þegar þeirra gerðist þörf.

Bifreið var ekið á ljósastaur við Suðurhóla á Selfoss þann 4. maí s.l.   Ökumaður og barn bæði í viðeigandi öryggisbúnaði og sluppu án teljandi meiðsla.  Höggið töluvert og staurinn óvígur eftir.

Annarri bifreið var ekið til vestur út af Suðurlandsvegi við Skeiðavegamót þann 3. maí. Bifreiðin, sem dró kerru, fór yfir Skeiðaveg eftir að hafa tekið niður ljósastaur við vegamótin og stöðvaðist á hjólunum út í móa vestan Skeiðavegar.  Eitthvert tjón á undirvagni enda yfir hraungrýti að fara.  Ökumaðurinn einn á ferð og ómeiddur.

Reglulega er farið í eftirlit vegna sóttvarna en við erum enn að fást við Covid og allir með í því.   Þá berast ábendingar um ýmislegt sem betur má fara, einkum á veitinga og gististöðum.   Atvik þessi hafa verið skoðuð og leiðbeint um úrbætur án þess að til kæru hafi leitt.