29 Nóvember 2021 11:05

Að undanförnu hefur hitastigið verið um frostmarkið og skipst á snjóél, slydda eða rigning.   Við þessar aðstæður verður fljótt gríðarleg hálka á vegum og gangstígum og mikilvægt að fara varlega í samræmi við það, hvort sem við erum gangandi eða á bíl.   Hálkan er að líkindum það sem skýrir flest þeirra 11 umferðaróhappa / slysa sem urðu í liðinni viku en sem betur fer sluppu flestir úr þeim án teljandi meiðsla.     Virkja þurfti hópslysaáætlun umdæmisins þegar 4 bílar lentu í umferðaróhappi á Suðurlandsvegi við Dýralæk.   Allir komust hins vegar á fæti út úr bifreiðunum og var fljótlega dregið úr viðbragði þegar staða mála skýrðist.   Um erlenda ferðamenn var að ræða í öllum bifreiðunum og nutu þeir aðhlynningar heilbrigðisstarfsmanna og björgunarsveitarmanna en eins og áður hefur komið fram reyndust þeir ó- eða lítið slasaðir.

Þrátt fyrir hálkuna finnast enn ökumenn sem aka of hratt og lentu 18 í ratsjá lögreglu í vikunni.  Helmingur þeirra var á þjóðvegi 1 í Vestur-Skaftafellssýslu, 1 í Sveitarfélaginu Hornafirði,  þrír í Rangárvallasýslu og restin í Árnessýslu.

Ökumaður vörubifreiðar sem var við vinnu í Bolaöldu þann 24. nóvember slasaðist hins vegar nokkuð þegar bifreið hans valt þar sem hann var að sturta möl af palli bifreiðarinnar.   Slökkvilið beitti klippum til að ná manninum út úr bifreiðinni og var hann fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Maður brenndist á hendi þegar hann slökkti eld sem blossaði upp í gasgrilli þegar verið var að kveikja upp í því hjá nágranna hans á Höfn þann 26. Nóvember.   Hann lauk slökkvistarfinu þrátt fyrir meiðslin og tjón á eignum er minniháttar.

Brotist var inn í vinnuskúr / gám við Stóru Laxá einhvern tíma á tímabilinu frá 22. nóvember til 23. nóvember s.l. og þaðan stolið rafmagnsverkfærum fyrir á aðra miljón króna.  Um er að ræða Dewalt og Milwakee verkfæri af ýmsum tegundum.  Skemmdir á húsnæðinu eru óverulegar.

Þann 22. nóvember kom í ljós að pípulagnaefni og verkfæri voru horfin úr húsbyggingu á Selfossi.  Andvirðið umtalsvert og tjón eftir því.

Þann 27. nóvember var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr verkfærahúsi við íþróttavöllinn á Selfossi.   Þaðan stolið fartölvu og startbyssu og einhverju af smærri munum.    Farið inn með því að brjóta rúðu í glugga.

Aðfaranótt 20. nóvember s.l. var aftur kveikt í ruslagámi og nú við Vallaskóla á Selfossi.  Á eftirlitsmyndavélum sést aðili, í blárri úlpu, svartri hettupeysu, dökkum buxum og dökkum skóm með hvítri rönd koma eftir Bankavegi kl. 02:33, inn á Sólvelli, staldra stutta stund við við innganginn að íþróttahúsinu en halda síðan að gámnum sem staðsettur er milli íþróttahússins og sparkvallarins og bera eld að innihaldi gámsins.  Viðkomandi hleypur síðan af vettvangi austur Sólvelli.   Byrjað verður á að kynna öllum lögreglumönnum myndbandið ef viðkomandi þekkist af þeim en í framhaldi má viðkomandi reikna með að myndir verði birtar í fjölmiðlum í því skyni að upplýsa um hver hann er.   Lögregla óskar jafnframt eftir því að þeir sem kunna að hafa upplýsingar um málið komi þeim til okkar enda ljóst að hætta af íkveikjum sem þessum er veruleg þó einhver kunni að telja saklaust að kveikja í ruslagámi.

Íshella Grímsvatna sígur enn og umtalsvert magn af vatni farið af stað undir jökulinn.   Fyrirboði um yfirvofandi Grímsvatnahlaup hefur að líkindum ekki fengist svona snemma í ferlinu áður en nú eru sítengdir hæðarmælar á hellunni sem senda upplýsingar um sig.   Venjulega eru fyrstu óyggjandi merki um yfirvofandi hlaup þegar órói af auknu rennsli fer að koma fram á jarðskjálftamælum við vötnin og að líkindum verða það næstu merki sem við sjáum.   Eftir sem áður hefur íshellan á Grímsvötnum sigið um 4 metra og því er hætta á að sprungur fari að myndast á stóru svæði í kring um þau með tilheyrandi hættu fyrir þá sem hugsanlega væru á ferð um jökulinn.