13 Mars 2020 14:32

Það hefur ekki farið framhjá neinum að nú er unnið á neyðarstigi Almannavarna vegna Covid19 veirunnar sem herjar á heimsbyggðina.  Við skulum halda því til haga að lang flestir sleppa vel undan samskiptum við veiruna en eldra fólki og fólki með undirliggjandi sjúkdóma er nokkur hætta búin af því að veikjast.

Aðgerðir yfirvalda miða m.a. að því að:   Í fyrsta lagi að reyna að hægja á útbreiðslu veirunnar þannig að heilbrigðisþjónustan sé, hverju sinni, með rými til að sinna þeim sem eru alvarlega veikir.  Í öðru lagi að reyna að tryggja að öll þjónusta samfélagsins geti gengið með sem eðlilegustum hætti,  ekki komi upp sú staða að heilu vinnustaðirnir / stöðvarnar séu lamaðar því allir eða nær allir starfsmenn séu lagstir veikir á sama tíma.

Lögreglan á Suðurlandi hefur gert ráðstafanir til að tryggja órofinn rekstur allra starfsstöðva sinna.  Í því sambandi hefur samgangur starfsmanna á milli stöðva í umdæminu verið takmarkaður og eins innan stöðva.   Þannig yfirgefur vakt á stöð húsið að kvöldi áður en ný vakt kemur inn og tekur við.   Rannsóknardeild og ákærusviði hefur verið skipt upp í tvo hópa þannig að annar hópurinn vinnur heima hjá sér í 4 til 5 daga á meðan hinn hópurinn er á venjubundinni starfsstöð við vinnu sína.  Starfsmenn í hópi A mega ekki hitta starfsmann í hópi B    Þetta er allt gert til að þurfa ekki að setja t.d. alla rannsóknardeildina í sóttkví í einu komi upp sýking hjá einum starfsmanni.

Á sama hátt er reynt að stýra afgreiðslu erinda á lögreglustöðvum þannig að mótttaka er í gegn um síma eða með rafrænum hætti.   Þannig er gott að hringja á undan sér þurfi menn viðtal á stöð við lögreglu þannig að unnt sé að greina það og koma í farveg með sem markvissustum hætti.

Við sinnum áfram öllum okkar daglegu störfum og já líka eftirlitinu og ef fólk brýtur af sér þá höfum við afskipti af því með tilheyrandi tiltali eða sektum eftir því sem við á hverju sinni.   Hinsvegar er ekki sjálfgefið að þér verði boðið upp í bílinn hjá lögreglunni heldur kann að vera að upplýsingatakan fari fram inn um bílgluggann hjá þér.

Sömu eða svipaðar ráðstafanir til að tryggja órofinn rekstur hafa verið gerðar hjá sjúkraflutningum á Suðurlandi og eins hafa slökkviliðin gert sínar ráðstafanir hvert eftir stærð og umfangi.

Við hvetjum fólk til að gæta að því að láta ekki sjálfskipaða sérfræðinga á netinu valda sér óþarfa áhyggjum.   Margt er sagt og af mis mikilli þekkingu.   Allar upplýsingar um þennan annars hvimleiða faraldur er að finna á heimasíðunni www.covid.is  Sinnum handþvotti og smitvörnum almennt eins og leiðbeint er um og munum að við ætlum okkur að vera við stjórn á ástandinu en láta ekki ástandið stjórna okkur.