10 Október 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík var kölluð til þegar deilur tveggja ungra manna, 16 og 17 ára, stigmögnuðust í vesturbænum í  nótt. Annar piltanna var sýnu æstari en hann greip exi og hótaði hinum líkamsmeiðingum. Sem betur fer stóð hann ekki við stóru orðin og faldi vopnið þegar lögreglan kom á vettvang. Lögreglan lagði síðan hald á öxina og handtók piltinn sem henni beitti. Móðir hins handtekna sótti svo drenginn á lögreglustöðina en þá var mesta reiðin runnin af honum. Deilur piltanna munu hafa snúist um kvennamál. Engan sakaði alvarlega í þessu rifrildi sem fór úr böndunum.

En menn rífast ekki bara um konur. Stundum getur bitbeinið verið gæludýr en eitt slíkt mál eru nú til meðferðar hjá lögreglunni. Þar eiga reyndar í hlut karl og kona sem deila um eignarhald á hundi. Konan átti hundinn en karlinn virðist síðan hafa eignast hann með lögmætum hætti. Hún sér eftir hundinum og vill fá hann aftur en það vill karlinn ekki samþykkja. Lögreglan reynir að koma á sáttum í málinu en það gengur erfiðlega. Enda geta líka verið miklar tilfinningar í spilinu þegar rifist er um fjórfætlinga.