16 Nóvember 2009 12:00

Karl á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. nóvember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Maðurinn var handtekinn ásamt 18 ára stúlku í húsi í austurborginni í gær í tengslum við rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á skotárás í Breiðholti í fyrrinótt. Málsatvik voru þau að tilkynnt var um vopnaðan mann við hús í Breiðholti aðfaranótt sunnudags. Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til en maðurinn var á bak og burt þegar lögreglan kom á vettvang en þar mátti sjá að hleypt hafði verið af haglabyssu en ummerki voru á útidyrahurð og gleri við hlið hennar. Einn maður var í íbúð á efri hæð hússins þegar hleypt var af byssunni en hann sakaði ekki.

Lögreglan krafðist einnig gæsluvarðhalds yfir stúlkunni en á það var ekki fallist og er hún laus úr haldi. Stúlkan og maðurinn veittu ekki mótspyrnu þegar þau voru handtekin.