15 Desember 2009 12:00
Mikið er um stöðubrot í Reykjavík en um helgina hafði lögreglan afskipti af ökutækjum vegna þessa. Einkum var um að ræða bifreiðar í miðborginni en myndirnar hér að neðan sýna vel hvað við er átt. Á þeirri efri má sjá hvar tveimur bílum er lagt ólöglega á gangstétt en við annan þeirra er jafnframt brunahani. Ef myndin er skoðuð vel sést einnig að dökklæddur maður með barnavagn er kominn út á götuna. Sá hafði reynt að komast leiðar sinnar eftir gangstéttinni en ekki tekist því bilið á milli bílsins og brunahanans var of lítið og því varð hann að fara út á götuna með vagninn til að geta haldið áfram för sinni. Það skal tekið fram að konan á myndinni tengist ekki umræddum ökutækjum. Á neðri myndinni sést hvar bíl er lagt á gatnamótum svo skapar bæði óþægindi og hættu fyrir aðra vegfarendur. Við þær aðstæður sem hér hefur verið lýst á lögreglan um fátt annað að velja en láta fjarlægja ökutækin á kostnað eigenda.