16 September 2019 15:59

Skráð voru 829 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í ágúst og fjölgar þessum brotum töluvert á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir ágúst 2019.

Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði töluvert á milli mánaða og fóru úr 155 brotum í 118 brot. Engin stórfelld fíkniefnabrot voru skráð á höfuðborgarsvæðinu í júlí. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna fækkaði á milli mánaða líkt og tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.

Mikil fjölgun er á skráðum innbrotum á milli mánaða og má rekja þá fjölgun til innbrota í ökutæki. Vert er að taka fram að engin fjölgun er á innbrotum á heimili á milli mánaða. Heilt yfir hafa borist um eitt prósent fleiri tilkynningar um innbrot en bárust að meðaltali á sama tíma sl. þrjú ár á undan. Í þessu samhengi má nefna að töluverð fjölgun var á tilkynningum um nytjastuld ökutækja en tilkynningum fjölgaði um rúm 36% á milli mánaða.

Tilkynntum ofbeldisbrotum fjölgar á milli mánaða og fara úr 104 tilkynningum í júlí í 122 tilkynningar í ágúst. Þegar fjölgunin er greind niður á svæði sést að mesta fjölgunin á sér stað í íbúahverfum og eru þetta í flestum tilfellum tilkynningar um heimilisofbeldi.

Árið 2015 undirritaði lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins sérstakan samstarfssamningur við sveitarfélögin um átak gegn heimilisofbeldi. Í kjölfarið var ráðist í framkvæmdir á verkreglum sem eiga að tryggja markvissari viðbrögð og úrræði gegn ofbeldi á heimilum.