Frá vettvangi við Reykjanesbraut.
24 Júlí 2018 14:37

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur og einn lést í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. júlí.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 16. júlí. Kl. 16.50 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur vinstri akreinar Sæbrautar við Kalkofnsveg og beygt áleiðis yfir á hægri akrein, og bifhjóli, sem var ekið austur þá akrein. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.41 féll ökumaður af rafmagnsvespu, sem var ekið um göngustíg við Álfabakka að undirgöngum Reykjanesbrautar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 17. júlí. Kl. 7.19 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut og út af henni að sunnanverðu gegnt Hvaleyrarholti þar sem hún fór fjórar veltur. Ökumaðurinn, sem hafði sofnað undir stýri, var fluttur á slysadeild. Kl. 7.48 féll hjólreiðamaður á Nesjavallaleið. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 9.33 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Rimaflöt með dráttarkerru, og hjólreiðamanns, sem hjólaði til vesturs á gangstétt með Rimaflöt og beygði út á akbrautina skammt frá Bæjarflöt. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.21 varð aftanákeyrsla á Dalvegi við Breiðholtsbraut. Ökumaður og farþegi fremri bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 18. júlí kl. 13.24 féll drengur af reiðhjóli við Lofnarbrunn 16. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 20. júlí kl. 16.15 varð aftanákeyrsla á Miklubraut til austurs skammt austan Skeiðarvogsbrúar. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á sysadeild.

Laugardaginn 21. júlí kl. 15.52 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Þingvallaveg og beygt áleiðis suður, og bifreið, sem var ekið vestur Þingvallaveg eftir að hafa ekið framúr bifreið skammt austan gatnamótanna. Báðir ökumennirnir og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Farþeginn var úrskurðaður látinn þegar þangað var komið.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Reykjanesbraut.