Frá vettvangi á Bústaðavegi.
10 Október 2018 13:14

Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 30. september – 6. október.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 1. október. Kl. 18.54 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Bústaðaveg og yfir á rangan vegarhelming á milli Háaleitisbrautar og Grensásvegar, og bifreið, sem var ekið austur Bústaðaveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.30 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut til austurs vestan Suðurfells. Eftir óhappið fóru ökumaður og farþegi í öftustu bifreiðinni fótgangandi af vettvangi, en voru handteknir skömmu síðar. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur. Tveir farþegar hinna bifreiðanna voru fluttir á slysadeild.

Þriðjudaginn 2. október kl. 14.07 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem var ekið vestur Háaleitisbraut. Við áreksturinn kastaðist síðarnefnda bifreiðin á þá þriðju, sem var ekið austur Háaleitisbraut. Tveir ökumenn og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 3. október. Kl. 18.34 var bifreið ekið vestur Vífilsstaðaveg og beygt áleiðis norður Hafnarfjarðarveg. Í beygjunni lenti bifreiðin á ljósastaur við gatnamótin. Ökumaðurinn leitaði sér aðhlynningar læknis eftir óhappið. Og kl. 21.59 var bifreið ekið á ósamsettan byggingarkrana úti í kanti við Breiðhellu skammt frá gatnamótum Gjáhellu. Bifreiðinni hafði verið ekið á öðru hundraðinu áður en óhappið varð. Félagar ökumanns óku honum á slysadeild.

Fimmtudaginn 4. október kl. 17.16 féll ökumaður vespu á göngustíg sunnan Fífuhjalla. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 5. október. Kl. 7.59 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut á leið til suðurs norðan Bústaðavegar. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar er grunaður um akstur undir áhrifum lyfja. Og kl. 13.54 varð árekstur með vespu, sem var ekið á gangbraut áleiðis yfir Tjarnarvelli gegnt Haukatorgi, og bifreið, sem var ekið um götuna. Ökumaður vespunnar leitaði sér læknisaðstoðar í framhaldinu.

Laugardaginn 6. október kl. 16.05 var bifreið ekið út af Þingvallavegi skammt frá gatnamótum Kjósaskarðsvegar þar sem hún valt. Ökumaður og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Bústaðavegi.