Frá vettvangi á Reykjanesbraut.
15 Október 2018 13:51

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. október.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 8. október. Kl. 10.37 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut og aftan á skotbómulyftara á sömu leið undir brúnni á Vífilsstaðavegi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 14.17 var bifreið bakkað í stæði gegnt húsi nr. 33 við Bragagötu og á gangandi vegfaranda, sem gekk þar eftir gangstétt. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.02 lenti drengur á vespu á hlið bifreiðar á gatnamótum Leirulækjar og Laugalækjar. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 11. október. Kl. 9.53 varð hjólreiðamaður á leið yfir gangbraut við gatnamót Skólavegar og Mosavegar fyrir bifreið, sem var ekið um gatnamótin. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 11.33 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut og á ljósastaur við Vesturlandsveg. Ökumaðurinn, sem mun hafa fengið aðsvif áður en óhappið varð, var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.45 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut og beygt vestur Hamrahlíð, og bifreið, sem var ekið suður Kringlumýrarbraut. Farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 12. október. Kl. 14.37 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Miklubraut til vesturs austan gatnamóta Kringlumýrarbrautar. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.49 varð gangandi vegfarandi, á leið yfir Blönduhlíð austan Eskihlíðar, fyrir bifreið, sem var ekið vestur Blönduhlíð. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut.