30 Júlí 2019 15:47

Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. júlí, en alls var tilkynnt um 24 umferðaróhöpp í umdæminu.

Miðvikudaginn 24. júlí kl. 14.46 féll ökumaður af bifhjóli sínu á móts við Suðurlandsbraut 20 í Reykjavík. Bifhjólamaðurinn, sem var á austurleið, sagðist hafa orðið var við gangtruflanir í hjólinu í aðdraganda slyssins. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 25. júlí kl. 7.52 hafnaði maður á reiðhjóli á bifreið á gatnamótum við Dalveg 24 í Kópavogi. Reiðhjólamaðurinn, sem var með hjálm, reyndi að hemla í aðdraganda slyssins en allt kom fyrir ekki. Hann ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar í framhaldinu.

Föstudaginn 26. júlí kl. 17.04 hafnaði maður á reiðhjóli, sem hjólaði á milli runna á Rútstúni í Kópavogi, á bifreið vestan við túnið. Reiðhjólamaðurinn, sem var ekki með hjálm, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 27. júlí kl. 10.32 varð aftanákeyrsla á Þingvallavegi í Mosfellsdal, á móts við vegamót að Æsustöðum. Ökumaður fremri bifreiðarinnar hugðist beygja út af veginum þegar áreksturinn varð. Farþegi í sama bíl ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar í framhaldinu.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi á Þingvallavegi.