Frá vettvangi á Sæbraut.
17 Febrúar 2023 15:38

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. febrúar, en alls var tilkynnt um 48 umferðaróhöpp í umdæminu.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 6. febrúar. Kl. 16.50 var bifreið ekið austur Suðurlandsbraut í Reykjavík, við Vegmúla, og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi. Einn fór sjálfur á slysadeild. Kl. 17.21 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Vesturlandsvegi í Reykjavík, í Ártúnsbrekku,  og rakst bifreiðin utan í hópbifreið, sem var ekið í sömu átt. Mikil hálka og snjóþekja var á vettvangi. Til rannsóknar er hvort lélegur dekkjabúnaður hafi átt þátt í slysinu. Einn var fluttur á slysadeild. Kl. 17.23 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg í Reykjavík, undir Höfðabakkabrú, og aftan á aðra bifreið, sem var ekið í sömu átt. Einn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.36 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Höfðabakka í Reykjavík, við Elliðaár, og hafnaði bifreiðin á vegriði. Ökumenn næstu tveggja bifreiða á eftir reyndu að hemla en runnu á fyrstnefndu bifreiðina, sem var utan í vegriðinu. Mikil hálka og snjóþekja á vettvangi. Einn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 7. febrúar kl. 7.14 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Reykjanesbrautar og Fjarðarhrauns í Hafnarfirði. Grunur er um að annarri bifreiðinni hafi verið ekið gegn rauðu ljósi. Einn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 8. febrúar kl. 10.33 varð fjögurra bíla árekstur á Sæbraut í Reykjavík, við gatnamót Skeiðarvogs. Svo virðist sem einum bílanna hafi verið ekið aftan á hina þrjá, en öllum var ekið til norðurs. Tjónvaldurinn er grunaður um ölvunarakstur. Einn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 9. febrúar kl. 12.21 rann strætisvagn á annan strætisvagn, sem var kyrrstæður á biðstöð í Vonarstræti í Reykjavík. Mikil hálka var á vettvangi. Einn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 10. febrúar kl. 13.19 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar í Reykjavík. Grunur er um að annarri bifreiðinni hafi verið ekið gegn rauðu ljósi. Fjórir voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 11. febrúar kl. 4.20 var ekið á gangandi vegfaranda á Grensásvegi í Reykjavík, við Fellsmúla. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.