9 Október 2024 10:37
Í síðustu viku lést einn vegfarandi og tuttugu og þrír slösuðust í fimmtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. september – 5. október, en alls var tilkynnt um 31 umferðaróhapp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 29. september. Kl. 0.10 var bifreið ekið norður Sæbraut í Reykjavík, á gatnamótum við Súðarvog, og á gangandi vegfaranda sem lést í slysinu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Og kl. 4.35 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Heiðmerkurvegi í Garðabæ, sem við það hafnaði utan vegar og valt þar nokkrar veltur. Ökumaðurinn og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Mánudaginn 30. september kl. 12.16 varð tveggja bíla í árekstur á gatnamótum Lyngháls og Hálsabrautar í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið suður Hálsabraut og hinni vestur Lyngháls svo árekstur varð með þeim, en á gatnamótunum er biðskylda fyrir umferð um Lyngháls. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 2. október. Kl. 20.23 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg í Kópavogi, í gjánni undir Hamraborg, og utan í aðra bifreið sem var á sömu leið. Í framhaldinu hafnaði fyrrnefnda bifreiðin utan vegar og lenti þar á steinvegg. Ökumaður hennar, sem var ekki í bílbelti og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.04 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á leið austur Vesturlandsveg í Reykjavík, að Ártúnsbrekku, sem við það snérist í hringi uns hún hafnaði á ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 3. október. Kl. 7.55 var hlaupahjóli hjólað í hlið bifreiðar á gatnamótum Urðarbrunnar og Úlfarsárbrautar í Reykjavík, en vitni sögðu hjólreiðamanninn hafa verið á töluverðri ferð og búinn að missa stjórn á hjólinu í aðdraganda slyssins. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.54 varð árekstur rafmagnshlaupahjóls og bifreiðar á Hverfisgötu í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni beygt af götunni áleiðis að porti og í veg fyrir hjólið, sem var ekið eftir göngu- og hjólastíg. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins, sem var ekki með öryggishjálm, fór sjálfur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 4. október. Kl. 14.32 var rafmagnshlaupahjóli ekið á gangandi vegfaranda á Rafstöðvarvegi í Reykjavík, við leikskólann Hnoðraholt. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Kl. 17.10 varð sex bíla aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi í Reykjavík, á móts við Orkuna, en mikil umferð var á vettvangi þegar slysið varð. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 17.10 var bifreið bakkað úr bifreiðastæði í Tryggvagötu í Reykjavík og á vegfarenda sem var að koma út úr annarri bifreið þar fyrir aftan. Sá var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.38 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut í Reykjavík, yfir gatnamót við Miklubraut, og á létt bifhjól, sem var ekið á gangbraut sem þverar götuna. Bifhjólamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 5. október. Kl. 11.16 var bifreið ekið vestur Suðurlandsveg í Reykjavík, við Hvamm, og aftan á aðra bifreið á sömu leið, en ökumaður hennar hafði numið staðar til að taka vinstri beygju og aka síðan veg sem liggur að Hólmi. Við það kastaðist önnur bifreiðin yfir á öfugan vegarhelming og á þriðju bifreiðina sem kom aðvífandi, en sú bifreið valt við þann árekstur. Sjö voru fluttir á slysadeild. Kl. 15.59 var bifreið ekið vestur Ásvallabraut í Hafnarfirði, við Nóntún, og á reiðhjól sem var hjólað á gangbraut. Í aðdragandanum sagði ökumaðurinn að sólin hefði byrgt honum sýn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 21.02 varð tveggja bíl árekstur í FH-hringtorgi á mótum Fjarðarhrauns og Flatahrauns í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var bifreið á innri akrein á leið út úr hringtorginu þegar bifreið á ytri akrein ók á hana. Tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 21.59 var bifreið ekið norður Álfheima í Reykjavík og aftan á aðra bifreið sem var á sömu leið. Tjónvaldurinn stakk af frá vettvangi, en vitað er hvert er skráningarnúmer bifreiðar hans. Ökumaður bifreiðarinnar, sem ekið var á, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.