9 Febrúar 2005 12:00

 Reykjavík, 9. febrúar 2005

112 dagurinn á Íslandi í fyrsta sinn

Þegar á bjátar höfum við aðgang að geysilega öflugu neti viðbragðsaðila og hjálparliðs í gegnum eitt samræmt neyðarnúmer fyrir landið og miðin – 112. Með einu símtali í 112 er unnt að virkja á augabragði lögreglu, slökkvilið, almannavarnir, Landhelgisgæsluna, sjúkraflutningamenn, lækna, hjálparlið sjálfboðaliða og barnaverndarnefndir. Yfir 300 þúsund erindi bárust 112 á síðasta ári.

Árangur af starfi þessara aðila byggir á hraða, samvinnu og skipulagi. Þeir taka höndum saman um að kynna starfsemi sína föstudaginn 11. febrúar þegar 112 dagurinn er haldinn á Íslandi í fyrsta sinn. Gert er ráð fyrir að 112 dagurinn verði árviss viðburður og beri upp á 11. febrúar ár hvert.

Fjölbreytt dagskrá í Smáralind

Viðamikil dagskrá verður í Smáralind í Kópavogi kl. 14-18, annars vegar í göngugötunni og hins vegar á bílaplaninu að norðanverðu, við Smárabíó. Þyrla Landhelgisgæslunnar sýnir meðal annars björgun og lendir á bílaplaninu kl. 15.00.

Göngugatan

kl. 14.00 Björn Bjarnason dómsmálaráðherra flytur ávarp

kl. 14.10 Skyndihjálparmaður Rauða krossins 2004

kl. 14.20 Verðlaun í Eldvarnagetraun LSS 2004

kl. 14.30-18.00

Stórbrotin tækjasýning á bílaplaninu við Smárabíó

kl. 15.00-18.00 verða þyrla, sjúkrabíll, slökkvibíll, björgunarbíll, vettvangsstjórabíll lögreglu, sprengjubíll Landhelgisgæslunnar og vélmenni til sprengjueyðingar til sýnis.

kl. 15.00 Landhelgisgæslan og SHS sýna björgun sjúklings í þyrlu.

kl. 16.00 SHS sýnir björgun fólks úr bílflaki með klippum og glennum.

kl. 17.00 Landhelgisgæslan og SHS sýna björgun sjúklings í þyrlu.

Opið hús víða um land

Fjöldi viðbragðsaðila víða um land býður almenningi í heimsókn eftir hádegi. Almenningi gefst þá kostur á að ræða við starfsmenn og skoða margvíslegan búnað. Gestum verður víða boðið upp á hressingu.

Nánari upplýsingar:

Garðar H. Guðjónsson verkefnisstjóri í síma 895 5807, gaji@mmedia.is.