10 Febrúar 2009 12:00

Dagur neyðarnúmersins, 112-dagurinn, verður haldinn um allt land miðvikudaginn 11. febrúar. Að þessu sinni leggja samstarfsaðilar 112 áherslu á að vekja athygli grunnskólabarna á því víðtæka öryggis- og velferðarneti sem þau hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið, ef eitthvað bjátar á. Börnunum er jafnframt bent á að þau geti sjálf gert ýmislegt til að stuðla að eigin öryggi og annarra, meðal annars með þátttöku í starfi sjálfboðaliðasamtaka. Samstarfsaðilar munu heimsækja grunnskóla um allt land og fræða nemendur um neyðarnúmerið og starfsemi sína.

Að venju verður skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur á 112-daginn og veitt verða vegleg verðlaun í Eldvarnagetrauninni.  Þessir dagskrárliðir og fleiri verða í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð kl. 15:00 á morgun.  

Markmið 112-dagsins er að kynna neyðarnúmerið og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund almennings um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi.  Samstarfsaðilar dagsins eru: Neyðarlínan, Ríkislögreglustjórinn, lögregluembættin, Brunamálastofnun, slökkviliðin, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Barnaverndarstofa, Landlæknisembættið, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Flugstoðir.