11 Febrúar 2015 08:42

112-dagurinn er haldinn um allt land í dag og er sjónum að þessu sinni beint að öryggi og velferð barna og ungmenna. Dagurinn var skipulagður í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið og hyggst fjöldi viðbragðsaðila heimsækja grunnskóla landsins til að ræða við nemendur um neyðarnúmerið, slysavarnir og skyndihjálp. Þá fræðir Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins börn í 4. bekk um neyðarnúmerið, slysavarnir og skyndihjálp.

Víða verður lögð áhersla á að kynna 112 sem barnaverndarnúmerið en 112 er helsti farvegurinn fyrir almenning til að koma tilkynningum til barnaverndaryfirvalda um allt land.

112-blaðið

112-blaðið kemur út í tilefni dagsins sem fylgiblað Fréttablaðsins. Í blaðinu er að finna fjölda greina og viðtala sem tengjast öryggi og velferð barna og ungmenna.

Athöfn í Björgunarmiðstöðinni

Við athöfn í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð verða veitt verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2014, neyðarverði ársins verður veitt viðurkenning, skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur og loks má nefna að ungum innhringjanda í 112 verður veitt sérstök viðurkenning. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp við athöfnina. Þá flytja Dr. Gunni og Friðrik Dór 112-lagið með aðstoð Viðbragðssveitarinnar en Dr. Gunni samdi lagið og frumflutti á Barnamenningarhátíð á síðasta ári.

Samstarfsaðilar 112-dagsins

112-dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Þau eru: 112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðin og samstarfsaðilar um allt land.