14 Febrúar 2005 12:00

Mikil þátttaka var í dagskrá 112 dagsins, sem haldinn var í fyrsta sinn sl. föstudag.  Dagurinn sem er samevrópskur, var haldinn að tilstuðlan dómsmálaráðuneytisins og ber upp á 11.2.  Gert er ráð fyrir að dagurinn verði haldinn ár hvert.

112 dagurinn var haldinn í samvinnu við 112, slökkvilið, ríkislögreglustjórann, almannavarnir, Landhelgisgæslunna, Slysavarnafélagið Landsbjörgu, Rauða kross Íslands, Landlæknisembættið og Barnaverndarstofu.

Margir lögðu leið sína í Smáralind til að kynna sér vinnu þeirra aðila sem að deginum komu. 

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra flutti ávarp við upphaf dagskrárinnar og opnaði sýningu með myndum ýmsra ljósmyndara af viðbragðsaðilum að störfum.  Í ávarpi ráðherrans kom m.a. fram að gott skipulag og örugg yfirsýn við slys eða hættuástand er lykillinn að skjótum árangri. 

Að lokinni stuttri athöfn hófst fjölbreytt dagskrá innandyra og utan.  Stórbrotin tækjasýning var á efra bílaplani við Smáralind þar sem m.a. starfsmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðiðsins sýndu björgun úr bílflaki með klippum og glennum, starfsmenn Landhelgisgæslunnar sýndu björgun með þyrlu og stjórnstöðvarbíll ríkislögreglustjórans var til sýnis, svo eitthvað sé nefnt. 

Innandyra kynntu aðilar starfsemi sína og hvernig þeir tengjast 112.  Almannavarnadeild ríkislögreglustjórans og 112 kynntu starfssemi sína, varpað var á tjald beinni útsendingu frá varðstofu 112 og fjarskiptamiðstöð lögreglu (FML).  Skyndihjálparhópar Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru með skyndihjálparkennslu og myndavélabíll lögreglu var til sýnis.

Dagurinn gekk mjög vel og virtust gestir kunna vel að meta það sem fyrir augu bar.