30 Mars 2012 12:00
Lögreglunni á Suðurnesjum var í vikunni tilkynnt um að um það bil 150 kílóum af verkuðum hákarli hafi verið stolið úr þurrkhjalli í Grindavík. Þjófnaðurinn er til rannsóknar hjá lögreglu.
Fleiri tilkynningar um þjófnaði bárust lögreglunni í vikunni. Þrír tilkynntu um þjófnaði á gsm símum sínum. Einum símanum var stolið á bensínstöð, þar sem eigandi hafði lagt hann frá sér stundarkorn. Öðrum síma var stolið á veitingastað í Reykjanesbæ, sem og kápu, og hinum þriðja úr bíl.
Tvö innbrot með grjóthnullungum
Lögreglunni á Suðurnesjum var í vikunni tilkynnt um innbrot og þjófnaði í umdæminu þar sem grjóthnullungar komu við sögu.
Í fyrra tilvikinu var brotist inn í fyrirtæki í Njarðvík. Farið var um hurð í afgreiðslu með því að brjóta í henni rúðu og lá steinn við hurðina. Hinn óboðni gestur, eða gestir, fór í sjóðsvél fyrirtækisins og stal þaðan allnokkrum fjármunum.
Í hinu tilvikinu var rúða brotin í fyrirtæki í Keflavík. Fyrir innan hana fannst grjóthnullungur. Munir sem höfðu verið í útstillingarglugga fyrirtækisins reyndust vera horfnir þegar að var gáð. Meðal annars var um að ræða vefmyndavél. Verðmæti þýfisins nemur tæplega hundrað þúsund krónum.
Lét greipar sópa í heimahúsi.
Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um innbrot í tvö heimahús í umdæminu í vikunni. Fyrra innbrotið átt sér stað með þeim hætti að rúða hafði verið brotin og gluggi síðan spenntur upp . Þjófurinn lét síðan greipar sópa og hafði á brott með sér sjónvarp, fartölvu, heimilistölvu, leikjatölvu, flakkara, hljómflutningstæki og tvo síma. Að auki ruslaði hann mikið til í íbúðinni og braut hurð að salerni. Í síðara tilvikinu var farið inn í hús með því að brjóta rúðu. Þaðan var stolið borðtölvu af gerðinni Apple, en önnur verðmæti svo sem hljóðfæri látin í friði.
Skorið á dekk bifreiðar
Lögreglan á Suðurnesjum fékk í vikunni tilkynningu um að búið væri að skera á dekk bifreiðar í Sandgerði. Þá höfðu einhverjir óprúttnir tekið sig til og unnið skemmdarverk á strætóskýli í bænum. Ekki var vitað ekki var vitað hverjir þarna voru að verki en málin eru í rannsókn.
Var að skreppa
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í vikunni akstur karlmanns á sjötugsaldri. Við nánari skoðun kom í ljós að hann ók réttindalaus því hann hafði verið sviptur ökuréttindum. Maðurinn viðurkenndi brot sitt og kvaðst hafa verið að skreppa. Þá stöðvaði lögregla för tveggja ökumanna sem ekki voru í bílbelti við aksturinn. Þeir þurfa að greiða fimmtán þúsund krónur hvor í sekt.