28 Október 2017 08:40

115 mál eru skráð í málaskrá lögreglu lögreglunnar á Austurlandi á þessu tímabili. Fjórhjólaslys varð á Upphéraðsvegi við Stekk / Refsmýri. Ökumaður fjórhjólsins hafði ásamt fleirum verð að smala fé í Ormsstaðarrétt og lenti ofan í skurði og kastaðist af hjólinu en þess ber að geta að skurðurinn var grasi gróinn og sjást illa.  Ökumaðurinn var fluttur til læknis með sjúkrabifreið og er slasaður á baki.

Ekið var á mannlausa bifreiða á Egilsstöðum og sá sem þar var að verki fór af staðnum án þess að gera viðeigandi ráðstafanir. Vitni var að árekstrinum og var lögregla kölluð til og hafði upp á ökumanninum. Hann viðurkenndi brot sitt og var kærður í kjölfarið.

Umferðaróhapp varð í Neskaupstað er ökumaður var að snúa bifreið sinni við Urðarteig, bifreiðin fór fram af vegbrún, rann þaðan niður gil og valt. Ökumaður bifreiðarinnar sagðist hafa misreiknað sig í myrkrinu með þessum afleiðingum. Hann var spenntur í bílbelti og slasaðist ekkert að öðru leyti er lítillega marinn eftir beltin.

Fíkniefni fundust í bifreið erlends ferðamanns við komu Norrænu til Seyðisfjarðar. Um er að ræða lítið magn og viðurkenndi maðurinn brot sitt.

Lögregla var kölluð til vegna slagsmála á Eskifirði en báðir aðilarnir voru talsvert við skál. Annar þeirra hlaut minniháttar skurð á höfði og taldi sig hafa orðið fyrir líkamsárás.

Þá má geta þess að lögreglan á Austurlandi mun hafa eftirlit með rjúpnaveiðum og eru skotveiðimenn hvattir til að hafa skotvopnaskírteini og veiðkort meðferðis þegar haldið er til veiða.