4 Janúar 2016 15:34

28. desember sl. mun hafa verið ekið utan í mannlausa bifreið sem stóð á bifreiðastæði við Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði, Pollgötumegin. Skemmd hlaust af þessum árekstri og sá sem olli tjóninu mun hafa ekið af vettvangi án þess að gera eiganda eða lögreglu viðvart. Bifreiðin sem ekið var á er ljósgrá Toyota Yaris. Þeir sem kunna að hafa séð áreksturinn eru hvattir til að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í síma 444 0400.

Um kl.01:37, aðfaranótt 29. desember, urðu lögreglumenn þess varir að vínveitingastaður á Ísafirði var opinn þrátt fyrir að komið væri fram yfir leyfilegan opnunartíma. Rekstraraðila var gert að vísa gestum út af staðnum.

Um miðjan dag þann 29. desember olli ungur maður skemmdum á hraðbanka Íslandsbanka í húsnæði Stjórnsýsluhússins á Ísafirði. Myndir af manninum náðust og hefur hann verið yfirheyrður.  Málið er upplýst.  Hraðbankinn var ónothæfur í nokkra daga eftir atvikið.

Þann 30. desember var lögreglunni tilkynnt um umferðaróhapp á Hólmavík. Þar var ekið á kyrrstæða bifreið.  Ökumaðurinn sem olli árekstrinum er grunaður um ölvun við akstur.

Aðfaranótt gamlársdags var lögreglu tilkynnt um drengi sem gerðu sér að leik að skjóta upp flugeldum í Bolungarvíkurgöngunum. Drengirnir voru farnir á bak og burt þegar lögregla kom á vettvang.  Óþarfi er að vekja athygli á hættunni sem þetta getur skapað.

Aðfaranótt nýársdags hafði lögreglan afskipti af ökumanni sem reyndist vera ölvaður. Þá var hann með fleiri farþega í bifreiðinni en skráningarvottorð segir til um.  Auk þess var ökumaðurinn með útrunnin ökuréttindi.  Atvikið gerðist á Ísafirði.

Þrír ökumenn voru kærðir í vikunni fyrir of hraðan akstur. Einn þeirra var einnig kærður fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar.

Skemmtanahald gekk vel fyrir sig í umdæminu öllu.