12 Mars 2018 11:12

Embætti ríkislögreglustjóra hefur nú birt niðurstöður könnunar um reynslu landsmanna af afbrotum og öryggistilfinningu íbúa árið 2017. Niðurstöður sýna m.a. 20% landsmanna á aldrinum 18 ára og eldri urðu fyrir broti árið 2016, en í könnuninni er spurt um eigin reynslu á undangengnu ári af innbroti, þjófnaði, ofbeldisbroti, eignaspjöllum og kynferðisbroti. Óvenju hátt hlutfall sagðist hafa orðið fyrir kynferðisbroti, eða 2,8% en hlutfallið hefur verið 2% eða lægra hingað til. Mögulegt er að aukin umræða hafi orðið til þess að landsmenn eru bæði meðvitaðri um slík brot og mögulega frekar tilbúnir að segja frá því.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér. Í febrúar voru birtar niðurstöður sem Félagsvísindastofnun tók saman um viðhorf almennings til þjónustu og starfa hennar, en þær spurningar voru hluti af sömu könnun og fjallað er um hér.

Um könnunina

Um er að ræða netkönnun sem lögð var fyrir 4.000 landsmenn 18 ára og eldri. Könnunin var framkvæmd af Félagsvísindastofnun fyrir embætti ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Svarhlutfall var um 63%. Gögnin voru vigtuð til þess að endurspegla þýði sem best með tilliti til búsetu, aldurs, menntunar og kyns.