13 Janúar 2012 12:00

Þann 10. janúar s.l. hófu 20 nýnemar nám á fyrstu önn grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins. Námið á önninni tekur fjóra mánuði, því lýkur um miðjan maí 2012 og þá fara nemendurnir í starfsnám í lögreglunni.

Af þessum nýnemum hafa sjö starfað sem afleysingamenn í lögreglunni, allt frá þremur mánuðum til rúmlega sjö mánaða. Meðalaldur nýnemanna er 27,5 ár, 6 konur eru í hópnum eða 30%.

Starfsreynsla nýnemanna er margvísleg og sem dæmi má nefna að í hópnum er að finna mælingamann, flugþjón, smiði, sölumenn, aðstoðardýrahirði, sjómenn, barþjón, grunnskólakennara, fangavörð, leikskólakennara, framleiðslustjóra, garðyrkjumann og vegamálara.

Menntun innan hópsins eru sömuleiðis margvísleg og nýnemarnir hafa t.d. stundað nám, um skemmri eða lengri tíma, í stjórnmálafræði, fjölmiðlafræði, hjúkrunarfræði, afbrotafræði, landafræði, húsasmíðum, tannlæknisfræði, lögfræði, flugumferðarstjórnun, félagsfræði og byggingartæknifræði. Þá eru í hópnum m.a. menntaðir kennarar, ökukennari og einkaflugmaður.

Meðal þess sem nýnemarnir hafa sem áhugamál eru hestamennska, ferðalög, íþróttir, fjallaklifur, ljósmyndun, tíska og hönnun, útivist og farartæki af öllum stærðum og gerðum.