21 Desember 2010 12:00
Valnefnd Lögregluskóla ríkisins hefur lokið störfum og voru 33 umsækjendur um skólavist metnir hæfir eftir að hafa staðist inntökupróf og mætt í viðtal hjá valnefndinni.
Með tilliti til áætlaðra fjárheimilda Lögregluskóla ríkisins var lagt fyrir valnefndina að miða við að 20 nemendur kæmu til með að hefja nám við grunnnámsdeild skólans á næsta ári og valdi hún þá sérstaklega en aðrir umsækjendur voru valdir sem varamenn í tiltekinni röð.
Þegar auglýst var eftir nýnemum var gert ráð fyrir að námið hæfist þann 1. febrúar 2011. Á umsóknareyðublaði var sérstaklega tekið fram að fyrirhugaðar væru breytingar á ákvæðum lögreglulaga og kjarasamningi Landssambands lögreglumanna, varðandi launagreiðslur til nemenda í bóknámi við skólann. Áréttað var að breytingarnar væru forsenda þess að Lögregluskóli ríkisins tæki inn nýnema árið 2011.
Allar upplýsingar um inntöku í grunnnámið og tilhögun þess voru birtar á heimasíðu skólans og þar tilgreint að endanleg ákvörðun um inntöku nýnema, fjölda þeirra, upphaf náms og tilhögun verði ekki tekin fyrr en þessar breytingar hafa verið gerðar.
Föstudaginn 17. desember s.l. var dreift á Alþingi frumvarpi til breytinga á lögreglulögum sem er í samræmi við það sem að ofan getur. Með því að smella hér má sjá texta frumvarpsins. Þann sama dag var síðan gert hlé á þingstörfum og fundum frestað til 17. janúar 2011. Því er ljóst að frumvarpið fær ekki þinglega meðferð fyrr en þingstörf hefjast aftur á nýju ári.
Vonast er til þess að frumvarpið verði samþykkt sem lög og gangi það eftir verður tekin stjórnvaldsákvörðun um inntöku nýnema í skólann, upphaf námsins og tilhögun.
Öllum hæfum umsækjendum hefur verið sent bréf þar sem annaðhvort kemur fram að þeir séu í hópi þeirra 20 umsækjenda sem valnefndin hefur valið til náms á framangreindum forsendum eða valdir sem varamenn.