16 Janúar 2003 12:00

200 ára afmæli hins einkennisklædda lögregluþjóns

Snemma á síðasta ári skipaði Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, nefnd til að undirbúa og minnast þeirra tímamóta, að 15. apríl n.k. eru liðin 200 ár frá því að lögreglan á Íslandi varð sérstök stofnun með einkennisklæddum lögregluþjónum.  Að sjálfsögðu nær upphaf starfa lögreglunnar mun lengra aftur í sögu landsins og er unnið að sögulegum þætti lögreglunnar af þessu tilefni, eins og síðar greinir. 

 Danskir lögregluþjónar í Reykjavík

Þann 15. apríl 1803 varð Reykjavík, samkvæmt konungsúrskurði, sérstakt lögsagnarumdæmi með bæjarfógeta og voru tveir danskir lögregluþjónar ráðnir honum til aðstoðar. Með stofnun bæjarfógetaembættisins varð Reykjavík fullburða kaupstaður með sérstökum staðarréttindum. Hið nýja embætti var margþætt; auk sýslumannsstarfanna og umboðsmennsku yfir konungsjörðum, hafði bæjarfógeti þær skyldur að vera einkamáladómari í Reykjavík, toll- og gjaldheimtumaður, fjárráðamaður ómyndugra, dómari í opinberum málum, lögreglustjóri og bæjarstjóri. Bæjarfógeti var einnig í stjórnarnefnd hegningarhússins á Arnarhóli.

 Í „Lovsamling for Island“ er að finna bréf rentukammersins til fjármálastjónardeildarinnar, ritað í Kaupmannahöfn þann 15. janúar 1803 um aðdraganda að ráðningu bæjarfógeta og lögregluþjóna í Reykjavík, sem er sá grunnur sem stétt lögregluþjóna byggir á í dag.

„Í 18. gr. í opnu bréfi frá 17. nóvember 1786 um fríheit fyrir íslenska kaupstaði var ákveðið að þessir kaupstaðir gætu vænst þess að verða einhvern tíma að lögsagnarumdæmum, þegar stækkun þeirra krefst þess.  Af þessum kaupstöðum hefur Reykjavík vaxið svo, bæði hvað varðar stærð hennar og til þess að halda uppi góðri allsherjarreglu, að nauðsynlegt er orðið að sjá henni fyrir eigin bæjarfógeta sem býr á staðnum og ennfremur þyrfti að útvega tvo lögregluþjóna til þess að annast framkvæmd löggæslu. Í sparnaðarskyni við þessa ráðstöfun mætti sameina þetta embætti með sýslumannsembættinu í Kjósarsýslu og héraðsdómaraembættinu í Gullbringusýslu, sem fram til þessa hefur verið hinn bæri dómari í kaupstaðnum, án þess að búa þar. Embættið er laust og því er heppilegt að hugsa nú til þess og þar sem mætti hugsa sér að embættið verði skipað dugandi dönskum eða norskum manni, sem fela mætti fleiri verkefni en unnt væri að leggja á Íslending, hefur embættið verið laust um skeið, þar sem nú hefur gefið sig fram maður með umsókn og þannig væri unnt að fela honum þetta embætti.  Við teljum mjög brýnt að af þessu geti orðið og óskum að gera tillögu í þessa átt, en áður en af því getur orðið leyfum við okkur fyrirfram að óska viðhorfs fjármálastjórnardeildarinnar varðandi útgjöldin…“

 Þýðandi: Hjalti Zóphóníasson.

Afmælisnefndin

Afmælisnefndina skipa þeir Guðmundur Guðjónsson, yfirlögregluþjónn, sem er formaður, og Sævar Þ. Jóhannesson, lögreglufulltrúi, báðir hjá embætti ríkislögreglustjóra, Friðrik G. Gunnarsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, og Guðmundur Gígja, lögreglufulltrúi, báðir hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, og Óskar Bjartmarz, lögreglumaður og Jónas Magnússon, rannsóknarlögreglumaður, tilnefndir af samtökum lögreglumanna.

Nefndin hefur látið vinna merki með mynd af einkennisfatnaði lögreglumanna eins og hann var 1803 og hátíðarbúningi lögreglunnar eins og hann er nú.

Tveir minnispeningar hafa verið hannaðir í nokkru upplagi, annar brons- en hinn silfurlitaður, með mynd af einkennisbúningi og merki lögreglunnar 1803 og 2003. Minnispeningurinn verður gefinn út af embætti ríkislögreglustjóra í númeruðum eintökum og verður til sölu.  Þá er unnið að gerð fleiri minjagripa fyrir lögregluna auk annars sem í undirbúningi er vegna afmælisins.

Ríkislögreglustjóri hefur lagt til við lögreglustjórana að þeir efni til sérstakra lögregludaga 26. og 27. apríl 2003 og opni lögreglustöðvar um allt land fyrir almenningi.

Þá er í gangi vinna við gerð ágrips af sögu lögreglunnar, bæði sem snýr að störfum sýslumanna til forna, sem sagnfræðingur á vegum sýslumannafélagsins vinnur að, og sögu lögreglunnar eftir að vaktararnir og síðan hinir einkennisklæddu lögregluþjónar komu til sögunnar og allt fram til okkar tíma.  Að þeim þætti vinnur afmælisnefndin.

Frímerki frá Íslandspósti

Íslandspóstur hefur í tilefni af  þessum tímamótum gefið út tvö frímerki, sem hér birtast:

Mynd: Íslandspóstur