30 Nóvember 2016 09:57
Það er rétt að minna bændur og vegfarendur á að sauðfé er enn að finna við og á vegum á nokkrum stöðum í umdæminu. Tíðin er góð og fé ekki allt komið á hús. Mikilvægt er að bændur reyni allt sem hægt er til að tryggja að fé sé ekki við þjóðvegina, ekki síst í ljósi þess að erfitt er fyrir ökumenn að sjá kindur í myrkrinu á kvöldin og nóttinni. Ökumenn eru hvattir til að vera á verði gagnvart þessu.
Um nýliðna helgi var einum gesti vínveitingastaðar á Ísafirði vísað út þar sem hann hafði ekki aldur til að dvelja þar. Þetta var kl.02:30 aðfaranótt 27. nóvember. Gerðar voru athugasemdir við rekstraraðila að slíkur gestur væri inni á veitingastaðnum enda er það hlutverk dyravarða að tryggja að svo sé ekki.
Sex ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu og á Djúpvegi. Sá sem hraðast ók mældist á 121 km hraða, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km. Ökumenn eru sérstaklega hvattir til að aka með varúð enda von á hálku, þó vegir kunni að vera snjólausir.
Tilkynningar bárust um tvö umferðaróhöpp í liðinni viku. Annað þeirra varð í Þorskafirði um miðjan dag þann 23. nóvember en þá virðist ökumaður hafa misst stjórn á bifreiðinni sem rann út af veginum og valt. Hálka var á veginum þegar atvikið varð. Ökumann, sem var einn í bifreiðinni, sakaði ekki. Hitt óhappið varð í Álftafirði síðdegis þann 27. nóvember. En þá var fólksbifreið ekið utan í vegrið sem er við veginn. Bifreiðin rann hvorki út af veginum né valt við áreksturinn en skemmdist töluvert. Hvorki ökumann eða farþega sakaði. Svo virðist sem ástæða óhappsins sé sú að ökumaður hafi sofnað við stýrið. Rétt er að minna ökumenn á mikilvægi þess að leggja ekki í akstur ef þreyta eða sifja er til staðar.