27 September 2017 21:28

Miklir vatnavextir ganga nú yfir Austurland og eru vegfarendur beðnir sérstaklega að fylgjast með færð á vegum og fara varlega. Þess má geta að samkvæmt vef Vegagerðarinnar hafa vegir skemmst allvíða á Austurlandi í vatnsveðrinu.

Í Fljótsdalnum hafa bændur og björgunarsveitarmenn staðið í ströngu í að bjarga fé enda láglendi á sumum stöðum í kafi. Það er því miður ljóst að talsvert fé hefur drukknað.

Talsverður erill hefur verið hjá lögreglunni á Austurlandi undanfarna daga og eru bókanir samtals 96. Bílvelta varð á hringvegi við afleggjarann til Vopnafjarðar. Ökumaður bifreiðarinnar sem var einn á ferð var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur en er minna slasaður en talið var í fyrstu. Hann er grunaður um ölvun við akstur. Þá var tilkynnt um útafakstur við Laugafell en talið er að ökumaðurinn hafi sofnað undir stýri og endaði bifreiðin ofan í vatni.  Þarna voru útlendingar á ferð og sem betur fer urðu engin slys á fólki.

Tilkynnt var um slagsmál tveggja aðila þar sem hnífi hafði verið beitt. Meintur árásaraðili var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Árásarþoli skarst mikið á fæti og var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæslu þar sem gert var að sárum hans.  Báðir aðilar voru undir áhrifum áfengis. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Lögregla var kölluð til vegna slagsmála á tjaldsvæðinu á Seyðisfirði þar sem tveir útlendingar voru í átökum Annar aðilinn var handtekinn og eftir nokkurt þref komst ró á mannskapinn og hinum handtekna var sleppt.

Eitt fíkniefnamál kom upp í umdæminu, þar var aðili handtekinn með meint kannasbisefni sér. Málið reyndist minniháttar.

11 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur og sá sem hraðast ók var á 133 km/klst. þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.

Einn útlendingur kom á lögreglustöðina á Egilsstöðum og bað um pólitískt hæli hér á landi þar sem hann væri ofsóttur af yfirvöldum í heimalandi sínu.