2 Nóvember 2017 13:34

Í skýrslunni Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2016 er að finna áhugaverðar upplýsingar um afbrot og þróun þeirra í umdæmi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Skýrslan er nokkuð ítarleg enda er farið yfir alla helstu brotaflokkana og dreifing brota enn fremur skoðuð sérstaklega, bæði hvað varðar sveitarfélögin í umdæminu og eins í ákveðnum hverfum borgarinnar. Margt jákvætt átti sér stað árið 2016 og má þar helst nefna að tilkynningum um hegningarlagabrot fækkaði í samanburði við árið á undan. Þar af fækkaði auðgunarbrotum, en sú hefur þróunin verið allt frá árinu 2010. Þar vega þjófnaðarbrot þungt, en þeim hefur fækkað verulega undanfarin áratug eða svo. Tilkynningar um bæði kynferðisbrot og ofbeldisbrot voru ámóta margar árin 2016 og 2015, en á sama tímabili fjölgaði hins vegar tilkynningum um umferðarlagabrot allnokkuð. Þetta og fleira til er rakið í skýrslunni Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2016, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út skýrslur þess efnis öll starfsár embættisins.