8 Janúar 2018 09:34

Embætti ríkislögreglustjóra hefur tekið saman bráðabirgðatölur um afbrot á landinu öllu árið 2017. Hegningarlagabrotum fjölgaði um 8% milli ára og voru brotin 12.105 eða að meðaltali um 33 á dag. Fjölgunin dreifist á marga brotaflokka hegningarlaga en hlutfallslega var mest fjölgun í skjala- og peningafalsi. Rán voru 51 sem er sambærilegt við síðustu ár og innbrot voru 1.071 sem er einnig sambærilegt við árið á undan en þá voru þau 1.038.  Hegningarlagabrot í lögregluembættunum dreifðust þannig að um 79% brota átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Þegar fjöldi hegningarlagabrota á hverja 10 þúsund íbúa árið 2017 er er skoðaður í samanburði við árið 2016 má sjá að mest fjölgun á hegningarlagabrotum er á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum en mest fækkun í Vestmannaeyjum.

Sérrefsilagabrotum fjölgar töluvert milli ára og voru þau 5.665 miðað við 4.526 árið á undan. Fjölgunin dreifist einnig á marga undirflokka sérrefsilaga, meðal annars fíkniefnabrot, brot gegn lyfja– og lyfsölulögum, lögum tengdum atvinnuréttindum erlendra ríkisborgara, vopnalögum, að fyrirmælum lögreglu sé ekki hlýtt o.fl. Umferðarlagabrot eru nánast jafn mörg á milli ára. Haldlagt var talsvert meira magn fíkniefna árið 2017 en árið 2016. Stærsta staka haldlagning ársins 2017 innihélt hass en talsvert meira magn kókaíns var haldlagt á árinu heldur en síðastliðin ár.

Bráðabirgðatölur ríkislögreglustjóra má finna hér.