21 Nóvember 2016 09:50

Embætti ríkislögreglustjóra hefur birt niðurstöður könnunar um viðhorf til lögreglu og starfa hennar á vef lögreglunnar. Helstu niðurstöður eru þær að hlutfall sem taldi lögreglu skila frekar eða mjög slæmu starfi í sínu hverfi/byggðarlagi var hærra árið 2016 en síðustu 3 ár á undan. 13% svarenda svöruðu „frekar eða mjög slæmu starfi“ í samanuburði við 10% árið á undan. Þá voru um 73% sem fannst lögregla aðgengileg, sem er lægra en árin 2013 og 2014 þegar hlutfallið var 77-78%, en ekki var spurt 2015. Rétt yfir þriðjungur íbúa (eða 36%) höfðu leitað eftir þjónustu/aðstoð lögreglunnar á árinu 2015. Flestir höfðu hringt á neyðarlínu, eða 31%. Þá höfðu 23% hringt á lögreglustöð og 22% nýtt sér samfélagsmiðla lögreglunnar.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér. Er þetta annar hluti niðurstaðna, en á næstu vikum munu vera birtar aðrar niðurstöður könnunarinnar þar sem farið er m.a. yfir öryggistilfinningu íbúa.

Um könnunina

Um er að ræða netkönnun sem lögð var fyrir 4.000 landsmenn 18 ára og eldri. Könnunin var framkvæmd af Gallup fyrir embætti ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Svarhlutfall var um 64%. Gögnin voru vigtuð til þess að endurspegla þýði sem best með tilliti til búsetu, aldurs, menntunar og kyns.