28 Júní 2020 13:41

Sýni voru tekin af þeim níu sem á föstudag fóru í sóttkví á Austurlandi og send til greiningar í gær. Niðurstöður liggja fyrir og reyndist enginn smitaður. Fleiri hafa ekki bæst við í sóttkví í fjórðungnum.

Aðgerðastjórn bíður þess nú að rykið falli í kjölfar smita er greindust nýverið á höfuðborgarsvæðinu og þeirra ráðstafana er sóttvarnalæknir kann að leggja til. Engar ákvarðanir hafa því verið teknar um aðgerðir. Vel er fylgst með komum erlendra ferðamanna með flugi, ferjum eða skútum. Það verkefni gengið vel.

Aðgerðastjórn áréttar að mjög fá smit hafa greinst í fjórðungnum, átta alls sem er undir 0,1% prósent hlutfall íbúa. Afar fáir eru samkvæmt því með mótefni fyrir veirunni. Við erum því jafn viðkvæm fyrir smiti og í upphafi faraldursins. Mikilvægt er að hafa þetta í huga nú þegar virkum smitum fjölgar á landinu.

Gætum að eigin smitvörnum og gerum þetta saman.