27 Maí 2008 12:00

Inntökuprófum fyrir nýnema sem hefja nám við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins í september 2008 eða janúar 2009, öðrum en sjúkraprófi sem fer fram þann 9. júní nk., er nú lokið.

Umsækjendur um skólavist voru alls 87 að þessu sinni, 57 karlar og 30 konur. Fjórum umsækjendum var hafnað vegna líkamlegra annmarka eða sakarferils sem ekki er við hæfi verðandi lögreglumanna.

Nú hafa 43 umsækjendur staðist öll próf, 21 umsækjandi er boðaður í sjúkrapróf og því gæti valnefnd Lögregluskóla ríkisins haft úr 64 umsækjendum að velja. Áætlað er að taka 16 nemendur inn á haustönn í september 2007 og 32 á vorönn í janúar 2009.

Það vekur enn furðu hve margir umsækjendur mæta ekki til prófa og láta ekkert af sér vita. Það er tekið skýrt fram í bréfum til umsækjenda að það veldur miklum vandræðum við skipulagningu prófanna þar sem aðeins er hægt að prófa 20 manns í einu. Að þessu sinni létu 10 umsækjendur ekkert í sér heyra.

Síðari hluta þessarar viku fá þeir sem staðist hafa próf tilkynningu um hvenær þeir eiga að mæta hjá valnefnd Lögregluskóla ríkisins en þeir sem standast sjúkrapróf fá að sinn tíma uppgefinn að loknu því prófi. Viðtöl valnefndar varða 10 – 13. júní og fljótlega að þeim loknum verður tilkynnt hverjir fá skólavist.