16 Desember 2002 12:00
Föstudaginn 13. desember 2002 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju. 46 nemendur sem hófu nám við skólann í janúarbyrjun 2002 voru brautskráðir að þessu sinni, fleiri en nokkru sinni fyrr í sögu skólans.
Í ræðu skólastjóra Lögregluskólans, Arnar Guðmundssonar, kom fram að árið 2000 hefði verið ákveðið að stytta námstímann tímabundið til að fjölga, eins hratt og mögulegt væri, menntuðum lögreglumönnum og fækka að sama skapi ófaglærðum afleysingamönnum sem hafa verið við störf sem lögreglumenn.
Þessi áætlun hefur gengið fyllilega eftir enda kom fram í ræðu dómsmálaráðherra, Sólveigar Pétursdóttur, að fljótlega þurfi að huga að því að lengja námið á ný, einkum með það í huga að nemendur og kennarar hafi meiri tíma fyrir verkefnavinnu.
Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náði Aldís Hilmarsdóttir en hún náði meðaleinkunninni 9,38 sem verður að teljast frábær árangur. Í næstu sætum þar á eftir voru Tjörvi Einarsson með meðaleinkunnina 9,00 og Dóra Birna Kristinsdóttir með meðaleinkunnina 8,79. Meðaleinkunn allra nemendanna var 7,83.
Þeim nemanda sem nær bestum árangri í íslensku eru veitt sérstök verðlaun og að þessu sinni var það Dóra Birna Kristinsdóttir sem var hlutskörpust.
Þeir lögreglufulltrúar sem starfa við Lögregluskólann völdu úr hópi nemenda Lögreglumann skólans og varð Jóhann Hilmar Haraldsson fyrir valinu.
Við athöfnina söng Lögreglukórinn þrjú lög, Óskar Bjartmarz hélt ræðu fyrir hönd starfandi lögreglumanna og Tjörvi Einarsson hélt ræðu fyrir hönd nemenda.
Eins og Tjörvi komst svo ágætlega að orði í ræðu sinni þá er starfsævi þessara nemenda nú sett.